Síðastliðið haust hófst kennsla á nýrri námsbraut í upplýsingatækni í mannvirkjagerð við iðn- og tæknifræðideild Háskólans í Reykjavík.

Við þarfagreiningu sem gerð var fyrir rúmu ári síðan kom í ljós að þörf fyrir nám í upplýsingatækni í mannvirkjagerð er mikil og þar sem iðn- og tæknifræðideild leitast við að vera í góðu samstarfi við atvinnulífið og að bregðast við kröfum þess með því að bjóða upp á það nám sem þörf er fyrir hverju sinni var ákveðið að hefja þróun námsins strax og hófst kennsla í því síðastliðið haust. Um er að ræða eins árs hagnýtt diplómanám sem ætlað er að veita nemendum hagnýta þekkingu á stafrænni tækni í mannvirkjagerð og upplýsingalíkönum mannvirkja eða BIM (e. Building Information Modeling).  

 Nemum

Kennslan í vetur gekk vel og útskrifast fyrstu nemendurnir af brautinni í júní. Umsagnir nemenda bera náminu gott vitni:

„Námið kemur manni í skilning um hvað BIM og UT í mannvirkjagerð raunverulega snýst um. Allir kennararnir koma af vinnumarkaðnum og eru því með praktíska nálgun á efnið sem er frábært.“

„Upplýsingatækni í mannvirkjagerð hefur gefið mér góða innsýn á þróun byggingariðnaðarins og hvernig hægt er að vera virkur í þróuninni.“

 

Upplýsingalíkön mannvirkja eða BIM gerir hönnunargögn tölvulæsanleg, sem gerir aðilum kleift að m.a. auka gæði hönnunargagna og nota þær upplýsingar áfram til að ná fram hagræðingu í framkvæmd og rekstri með ýmsum hætti.

Í náminu öðlast nemendur yfirgripsmikla þekkingu á aðferðafræði BIM og hvernig upplýsingatækni nýtist við hönnun, framkvæmd og rekstur mannvirkja. Nemendur læra að beita BIM aðgerðum og ferlum ásamt því að þekkja til faglegra starfshátta og hvernig nýta eigi þessa þekkingu við lausn á hagnýtum verkefnum. Lögð verður áhersla á að nemendur geti nýtt sér mismunandi BIM aðgerðir og kynnist upplýsingatækni almennt í mannvirkjagerð og tengingu hennar við 4. iðnbyltinguna.

 

Hægt er að sækja um nám í upplýsingatækni í mannvirkjagerð og fá frekari upplýsingar um námið hér: https://www.ru.is/grunnnam/idnfraedi/upplysingataekni-i-mannvirkjagerd/. Einnig má snúa sér beint að Hjördísi Láru, verkefnastjóra námsins, fyrir nánari upplýsingar.