Klettaskóli

Klettaskóli, áður Öskjuhlíðarskóli, er sérskóli á grunnskólastigi.  Hann er byggður í tveimur áföngum, árin 1974 og 1985.  Samkvæmt samþykktum aðalteikningum frá 1983 var fyrirhugað að byggja þriðja áfanga með hátíðarsal, íþróttasal, og sundlaug inni og úti ásamt stoðrýmum, norðvestan við núverandi hús.

Samkvæmt ákvörðun borgarráðs frá 9. febrúar 2012, er nú fyrirhugað að fullgera skólann, samhliða gagngerum endurbótum á núverandi húsi og lóð.  Frá því að fyrri áfangar skólans voru byggðir hafa kröfur um húsrými aukist, ekki síst vegna aukinnar áherslu á aðgengi og þjónustu við fatlaða nemendur skólans.  Þetta gerir að verkum að hluti þeirrar starfsemi sem nú er í skólanum þarf að flytjast í viðbyggingu, það er stjórnun og félagsaðstaða unglinga.  Áfram er svo gert ráð fyrir háðíðar- og matsal, íþróttasal og sundlaug í viðbyggingu.  Við þetta stækkar skólinn úr 3.200 m² í 6900 m².  Samhliða þessu er gert ráð fyrir gagngerum endurbótum á núverandi húsi, ekki síst til að laga það betur að þörfum fatlaðra.

Áætlanagerð

Breyting á deiliskipulagi var samþykkt í borgarráði 7. nóvember 2013 og hönnun hússins stendur yfir.  Aðalteikningar voru samþykktar 11. mars 2014 og nú er unnið að gerð sérteikninga og útboðsgagna.

Í hönnuninni var lögð áhersla á vandaða aðlögun að umhverfi skólans, þar sem þarfir hans kalla á nokkuð stóra viðbyggingu í grónu hverfi.  Farin var sú leið að fella stærstu húshlutana, íþróttahús og sundlaug sem mest inn í landið og þekja með torfi, í viðleitni til að vinna með þennan hluta hússins sem landslag fremur en byggingu.  Á svipaðan hátt er ný félagsmiðstöð unglinga felld inn í skólalóðina.  Þar sem viðbyggingin mætir núverandi húsi kemur svo nýr hátíðarsalur, og aðalinngangur, en ný stjórnunarálma er byggð ofan á núverandi hús.  Þrjár meginálmur núverandi húss halda útliti sínu að mestu leyti óbreyttu.

Í innra skipulagi er lögð áhersla á að þjóna starfseminni sem best.  Viðbyggingin er samþjöppuð með stuttum og greiðum umferðarleiðum sem henta fötluðum vel.  Stjórnunarálma á 2. hæð er miðsvæðis með góðum tengingum við eldri og nýrri hluta skólans.  Í núverandi húsi, eru umferðarleiðir sömuleiðis gerðar styttri og greiðari, og kennslustofur og stoðrými endurbætt með þarfir fatlaðra nemenda í huga.

Á sama hátt þarf að breyta skólalóðinni verulega.  Leiksvæðinu verður skipt upp í svæði fyrir mismunandi aldurshópa og hæðarsetning hennar endurskoðuð þannig að meira verði um lárétta fleti sem henta hjólastólum.

Heildarkostnaður vegna verksins er áætlaður um 2.400 milljónir króna.

BIM

Verkið hefur frá upphafi verið unnið samkvæmt BIM aðferðafræði.  Allir hönnuðir vinna með byggingarlíkan í Autodesk Revit, sem afhent verður á IFC-formi.

FacebookDeila