Óskar Valdimarsson

Óskar Valdimarsson

Minningarorð

Óskar Valdimarsson hóf störf hjá Framkvæmdasýslu ríkisins árið 1996. Hann var forstjóri frá árinu 1999 en nú í sumar fögnuðum við 15 ára starfsafmæli hans sem forstjóra. Óskar hafði mikinn metnað fyrir hönd stofnunarinnar og lagði hann ríka áherslu á að Framkvæmdasýslan væri ávallt í fararbroddi og þannig leiðandi afl á sínu sviði. Undir forystu hans hafa verið stigin mörg framfaraskref á sviði opinberra framkvæmda. Strax árið 1999 var ákveðið að FSR tæki upp gæðastjórnun. Gæðastjórnunarkerfi stofnunarinnar hlaut vottun haustið 2012 og var FSR þar með ein allra fyrsta opinbera stofnunin á Íslandi sem var með vottað gæðastjórnunarkerfi. Þetta verkefni er lýsandi fyrir framsýni Óskars og elju í starfi.

Óskar var í eðli sínu frumkvöðull sem lagði áherslu á frumkvæðisverkefni. Vistvæn gildi voru honum hugleikin og hafði hann forystu um að innleiða þau með vistvænum byggingarferlum og byggingum. Þannig lagði hann til að helstu verkefni FSR fengju alþjóðlega vottun og hefur það náð fram að ganga. Þá hefur stofnunin verið í fararbroddi við að innleiða vistvæn og sjálfbær viðhorf í íslenskum byggingariðnaði. FSR er stofnaðili Vistbyggðaráðs og nýtti Óskar einnig krafta sína innan Nordic Built verkefnisins.

Óskar innleiddi BIM, upplýsingalíkön mannvirkja, í verkefnum FSR en það er aðferðafræði við hönnun mannvirkja, þar sem hönnuðir gera rafræn, þrívíð líkön af mannvirkjum. Markmiðið er að bæta gögn og minnka líkindi á mistökum á undirbúnings- og hönnunarstiginu. Óskar vann ötullega að því að koma á fót íslenskum vettvangi, BIM Ísland, til að styðja við innleiðinguna hérlendis. Hann var öflugur í erlendu samstarfi og nutum við samstarfsfólk hans þess.

Ráðagóður, hvetjandi og yfirvegaður eru orð sem lýsa Óskari sem stjórnanda og samstarfsmanni. Hann var fagmaður sem var alltaf yfirvegaður og er það eiginleiki sem kom sér einkar vel í starfi. Hann sýndi starfsmönnum sínum mikið traust en ávallt var hægt að leita til hans og fá góð ráð og leiðsögn.

Starfsfólk FSR hefur verið með leynivinaviku á aðventunni undanfarin ár. Þá er litlum vinagjöfum lætt til samstarfsmanna og í lok vikunnar kemur starfsfólkið saman, búið veitingum að heiman og þá giskar fólk á hver leynivinurinn er. Ávallt eru nöfn starfsmanna nefnd en þó var það svo að nafn Nínu eiginkonu Óskars var iðulega nefnt. Oftar en ekki átti sá kollgátuna enda báru gjafirnar þess merki.

Nína er einstök kona og var augljóst hvaða hug Óskar bar til hennar enda kom alltaf blik í augun á honum þegar Nínu bar á góma, virðingin og væntumþykjan leyndi sér ekki.

Það hefur verið mikil gæfa að fá að vinna með Óskari, betri samstarfsfélaga er ekki hægt að hugsa sér. Við erum lánsöm að hafa notið leiðsagnar hans og erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum með honum. Við samstarfsfólk Óskars hjá Framkvæmdasýslu ríkisins vottum Nínu, dóttur, stjúpdóttur, tengdasonum, barnabörnum og öðrum aðstandendum samúð okkar. Megi minningin um góðan mann veita ykkur styrk í sorginni.

Fyrir hönd samstarfsfólks hjá FSR,
Halldóra Vífilsdóttir