BIM Ísland hlýtur styrk úr Aski mannvirkjarannsóknarsjóði
Á dögunum fengu fjörtíu nýsköpunar- og/eða rannsóknarverkefni styrkúthlutun úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði. Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, og Logi Einarsson, menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra, afhentu styrkina en að þessu sinni var 182 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum. BIM Ísland hlaut styrk úr sjóðnum fyrir framhaldsverkefnið buildingSMART eining á Íslandi sem hlaut einnig styrk frá Aski árið 2023.
Opnir staðlar í mannvirkjagerð eru lykill að stafrænni þróun mannvirkjagerðar. Stafræn þróun mannvirkjagerðar er grunnur að hagkvæmri og umhverfisvænni mannvirkjagerð. Opnir alþjóðlegir staðlar í mannvirkjagerð eru sérstaklega mikilvægir fyrir fámennt land eins og Ísland sem á erfitt með að búa til sína eigin. Í þessu verkefni er lögð áhersla á samstarf við buildingSMART International, buildingSMART einingar í Evrópu og buildingSMART einingar á Norðurlöndum. Markmiðið er að taka þátt í þróun opinna staðla og miðla þekkingu um notkun þeirra á íslenskum markaði.
buildingSMART styður við og þróar opna BIM staðla. Opnir BIM staðlar tryggja samskipti milli mismunandi hugbúnaðar í hönnun, framkvæmd og rekstri. Þannig stuðlar buildingSMART að stafrænni þróun í mannvirkjagerð og opnum samskiptum á milli hugbúnaðar.
Styrkurinn er mikil viðurkenning fyrir BIM Ísland og meðal verkþátta sem styrkurinn styður við er áframhaldandi rekstur buildingSMART á Íslandi, þátttaka á buildingSMART ráðstefnum og vinna við buildingSMART Professional vottun.