Fyrsti BIM dagurinn var haldinn 31. Október s.l. þar sem aðilar úr byggingariðnaðinum komu saman og hlustaðu á fjölbreytt erindi um möguleika BIM og upplýsingatækni á öllum stigum í framkvæmdum.
Marzia Bolpagni, Senior BIM advisor hjá MACE í London fræddi okkur m.a. um upplýsingakröfur í BIM verkefnum, þar sem hún lagði áherslu á mikilvægi þess að skilgreina virði og notkun BIM fyrir hvert verkefni ásamt því að fjalla um hvernig BIM hefur áhrif á lagalegt umhverfi. Að lokum fjallaði hún um nákvæmni- og þróunarstig BIM líkana og hvernig er hægt að staðfesta að þeim hafi verið náð.
Næstur á svið var Christian Østen, VDC Group manager hjá Aarsleff í Aarhus. Hans fyrirlestur fjallaði um samvinnuverkefni á milli Aarsleff, Arkitema og Cowi, en þessi fyrirtæki hafa rýnt í sína samvinnuferla í samkeppnisverkefnum til að geta nýtt sér upplýsingar í BIM líkönum til að betrumbæta og hagnýta samkeppnisferlið sín á milli.
Byggingaflokkunarkerfi voru kynnt af Thomas Holm og hvernig þeim er beitt í verkefnum. Thomas er byggingafræðingur og vinnur sem BIM ráðgjafi hjá Ajoursystems í Danmörku. Hann fór yfir tegundir byggingaflokkunarkerfa og hver ávinningurinn af notkun þeirra er t.d. í gerð kostnaðaráætlana, magntöku og rýni á hönnunargögnum.
Katrín Jóhannesdóttir vinnur sem Senior advisor hjá Skanska í Noregi og sagði frá stærsta samgönguverkefni í Noregi. Í þessu verkefni fóru öll samskipti fram í skýjalausn og voru engar teikningar gefnar út, aðeins líkön. Hún fór yfir ávinninga og hindranir í innleiðingarferlinu.
Síðasti fyrirlesarinn var Michael Hoffmann Erichsen, framkvæmdastjóri Optimise, en Optimise sérhæfir síg í BIM ráðgjöf til verkkaupa og verktaka sem vilja tryggja að þeir fái sem mest út úr hinu stafræna samstarfi. Hann kom inn á mikilvægi þess að samningar hafi ákvæði um stafræn samskipti (ICT) og að samstarfið sjálft er mikilvægast, tæknin gerir okkur það bara kleift að vinna betur og nánar saman.
Að loknum fyrirlestrum var gestum boðið upp á léttar veitingar og voru fyrirtæki með kynningar á sínum vörum.
Óhætt er að segja að dagurinn heppnaðist vel í alla staði og var uppselt á viðburðinn.
Hlökkum til að sjá alla að ári liðnu.
Stjórn BIM Íslands.