Betri nýting í byggingariðnaði

,

Byggingariðnaður á heimsvísu glímir við miklar áskoranir. 85% verkefna fara fram úr kostnaðaráætlunum, 93% fara fram úr í tímaáætlunum og 39% kolefnislosunar er rakin til byggingariðnaðarins. Sterkar vísbendingar eru uppi um mikla sóun í byggingariðnaði og að hann hafi setið eftir í tækniþróun í samanburði við annan iðnað á liðnum áratugum.

Á Íslandi höfum við ekki farið varhluta af þessari þróun þar sem við fáum reglulega fréttir af opinberum verkefnum sem fara fram úr kostnaðar- og tímaáætlunum. Á sama tíma virðist erfiðlega hafa gengið að halda uppi gæðum nýbygginga á Íslandi.

Hafin er tæknibylting í mannvirkjagerð sem byggir á notkun þrívíðra líkana og upplýsingum tengdum þeim, BIM (e. Building Information Modeling). Á grunni þessarar aðferðafræði er hægt að bæta gæði hönnunar, hagræða og auka gæði framkvæmda sem og hagræða í rekstri mannvirkja á öllum rekstrartíma þeirra.

Tæknibylting í mannvirkjagerð

Á síðustu árum hafa markviss skref verið tekin í nágrannalöndunum Danmörku, Finnlandi, Noregi og Bretlandi sem sett hafa löggjöf um notkun BIM aðferðafræðinnar í opinberum verkefnum. Eftir mikla undirbúningsvinnu lögfestu Bretar árið 2016 BIM kröfu í verkefnum sem farið er í fyrir opinbert fé og ná ákveðinni stærð. Í kjölfarið hafa kannanir gefið til kynna gríðarlega aukningu á notkun BIM meðal breskra sérfræðinga í mannvirkjagerð eða úr 13% árið 2011 í 73% árið 2020. Af þeim sem hafa innleitt BIM af þessum sömu sérfræðingum telja 71% að breytingin hafi leitt til aukinnar framleiðni. Undirbúningsvinna Bretanna er nú orðin að ISO staðli (ISO 19650) sem tekur á hlutverkum, verkefnum, ábyrgð og ferlum í BIM verkefnum.

Evrópusambandið hefur gefið út handbók til stuðnings innleiðingar á BIM í opinberum verkefnum í Evrópu. Talið er að slík innleiðing geti leitt til hagræðingar í hönnun og framkvæmd á bilinu 13% til 21% og 10% til 17% á rekstrartíma. Slíkur árangur næst ekki fram með minniháttar breytingum, BIM krefst nýrrar nálgunnar allra sem að verkefnunum koma. Enn sem komið er hefur þróunin á Íslandi að mestu verið leidd áfram af notendum en heildstæður árangur næst ekki nema með þátttöku stjórnvalda sem leggja fram áætlun og leikreglur.

Framkvæmdasýsla ríkisins kom BIM aðferðafræðinni á dagskrá á Íslandi árið 2008 og hefur síðan þá unnið að aukinni notkun á BIM í sínum verkefnum. Margar arkitekta- og verkfræðistofur hafa byggt upp þekkingu og nýta BIM að einhverju leyti í verkefnum sínum, innanlands sem utan. Við höfum því góðan grunn til að taka næstu skref til aukinnar hagræðingar, meiri gæða og umhverfisvænni mannvirkja.

BIM Ísland er tilbúið

BIM Ísland eru félagasamtök aðila sem koma að hönnun, framkvæmd, rekstri og eignaumsýslu mannvirkja. Markmið félagsins er að hvetja til stöðugra umbóta í notkun BIM og stafrænnar tækni til aukinna gæða og hagræðingar á líftíma mannvirkja. Á síðustu árum hefur BIM Ísland undirbúið samræmt verklag fyrir BIM verkefni á Íslandi sem hægt væri að nota sem grundvöll að heildstæðari BIM innleiðingu og tæknibyltingu í íslenskri mannvirkjagerð. BIM Ísland er tilbúið að taka þátt í samtali um tækifærin sem felast í aukinni notkun BIM og annarrar tækni á íslenskum markaði.