Árlegur BIM Hub fundur fór fram í Stokkhólmi

Nú í vikunni fór fram í Stokkhólmi árlegur BIM Hub fundur sem fulltrúar Norðurlanda og Eystrasaltslandanna hafa aðild að. Um er að ræða óformlegan samráðsvettvang buildingSmart svæðiseininga Norðurlandanna, BIM Ísland og sambærilegra samtaka Eistlands og Litháen. Davíð Friðgeirsson og Elvar Ingi Jóhannesson sóttu fundinn fyrir hönd BIM Ísland.

Rætt var um stöðu á þróun og innleiðingu openBIM, staðla, leiðbeininga og samræmdra krafna verkefna og þær sameiginlegu áskoranir sem löndin standa frammi fyrir. Sérstakur gestur fundarins var Richard Kelly, rekstrarstjóri buildingSmart International (bSI), sem fór yfir skipulag, markmið og starfsemi bSI.

Ljóst er að þátttaka í fundum sem þessum skapar verðmæt tengsl við helstu sérfræðinga Norðurlanda á þessu sviði og opnar dyr að frekara samstarfi, íslenskum markaði til mikilla hagsbóta.