BIM upplýsingalíkön mannvirkja

FMOS BIM líkan

FMOS BIM líkan

Í nágrannalöndum okkar hefur í vaxandi mæli verið hugað að aðferðum til að minnka líkindi á mistökum í undirbúnings- og hönnunarferlinu. Verulegt skref í þessa átt er innleiðing á upplýsingalíkönum mannvikja, BIM – Building Information Model, og einnig á Íslandi hefur verið unnið að kynningu og innleiðingu á BIM. FSR hefur veitt BIM verkefninu stuðning með ýmsum hætti. Unnið var að því að koma á fót íslenskum vettvangi, BIM Ísland, til að móta íslenska stefnu um hugmyndafræðina og styðja við innleiðingu BIM á Íslandi. Á vef FSR er á öðrum stað gerð grein fyrir upphafi BIM verkefnisins og atburðum, sjá Innlent samstarf. Áhersla FSR hefur verið á að beita hugmyndafræðinni á hagnýtan hátt og vinna að leiðsöguverkefnum sem viðmiðun í innleiðingu BIM í stærri verkefnum. Sérstakur BIM faghópur hjá FSR ásamt forstjóra kemur að þeim stuðningi.

Um BIM

Með Building Information Modeling, BIM, sem nefnt er upplýsingalíkön mannvirkja á íslensku er átt við nýja aðferðafræði við hönnun mannvirkja, þar sem hönnuðir gera rafræn, þrívíð líkön af mannvirkjum. Þar eru byggingarhlutar tengdir saman og upplýsingar, svo sem efni, áferð, magn og fleira, tengdar við þá.

Tilgangur

Tilgangurinn með BIM, upplýsingalíkönum í mannvirkjagerð, er að auka gæði hönnunar og framkvæmdar og stuðla að hagkvæmari byggingum með tilliti til rekstrar þeirra og líftíma. Með aukinni samþættingu hönnunarferilsins og samvinnu hönnuða aukast gæði hönnunargagna sem stuðlar að hagkvæmari byggingum. Upplýsingaflæði milli hönnuða er einn mikilvægasti hluti vinnunnar við líkanið og upplýsingar sem einu sinni eru settar í líkanið nýtast áfram í ferlinu.

 

BIM Ísland – Þróun BIM á Íslandi

BIM Ísland var stofnað var í desember 2008 í þeim tilgangi að innleiða notkun samhæfðra upplýsingalíkana við hönnun opinberra mannvirkja til að auka gæði hönnunar og nákvæmni upplýsinga um mannvirkið og ná með því fram lægri byggingar- og rekstrarkostnaði. Meðal markmiða BIM Íslands var að koma því á að nota BIM í öllum meginverkefnum á vegum þeirra, einnig að halda úti vefnum  www.bim.is og fréttabréfi þar sem fjallað er um þróun aðferðafræðinnar, bæði hérlendis og erlendis. Auglýst var eftir starfsmanni og var ráðinn  Haraldur Ingvarsson arkitekt, sem starfaði sem framkvæmdastjóri frá mars 2009 til maí 2011.

Á þeim tveim árum sem framkvæmdastjórinn starfaði hefur mikið áunnist eins og fram kemur í BIM Ísland, greinargerð sem hann skilaði um það, sjá hægra megin á þessari síðu. Á kynningum á vegum BIM Íslands var farið yfir grunnspurningarnar varðandi BIM og er skilningur á möguleikum upplýsingalíkansins stöðugt að aukast og mikilvægi samnýtingar gagna. Notkun BIM á fyrri stigum er með áherslu á faglíkön arkitekta, burðarþols og lagna auk árekstrarleitar milli fagaðila. Ýmsir aðilar á Íslandi hafa notað BIM á fyrrnefndan hátt. Dæmi er einnig um að á Íslandi hafi verið notað næstu stig sem er að tengja kostnaðar- og framvinduáætlanir við líkanið. Loks er mögulegt að bæta við í líkanið orkuútreikningum og fleiri þróuðum greiningum.

Auk kynninga hafa útgáfumál hafa verið mikilvægur þáttur í starfsemi BIM Ísland, það er Fréttabréf BIM Íslands, sem ásamt vefnum www.bim.is hefur eflt fagþekkingu í notkun upplýsingalíkansins og skýrt frá atburðum og nýju efni, erlendu sem innlendu.

Samstarf um BIM

FSR hefur lagt verulega að mörkum á samstarfsvettvangi  BIM Ísland og hefur að auki starfað að innleiðingu BIM á öðrum vettvangi. Innan FSR hefur forstjóri haft sér við hlið starfshóp um BIM þar sem Þórir Jónsson er nú í forsvari. Í innlendu samstarfi við aðra opinbera verkkaupa hefur FSR staðið að kynningum og fræðslufundum um BIM, þar sem hefur verið sagt frá kostum aðferðafræðinnar og hvernig hún er að þróast. Á ýmsum vettvangi hefur kynningum var beint að hönnuðum, verktökum og verkkaupum. Í erlendu samstarfi FSR, svo sem í samstarfi við systurstofnanir, er BIM eitt meginþemað og á vettvangi bips og buildingSmart (sjá tengla) er fjallað um viðfangsefni BIM.

BIM leiðsöguverkefni

FSR hefur einnig, í samstarfi við nokkra verkkaupa og hönnuði, hrundið af stað leið-söguverkefnum þar sem hannað hefur verið samkvæmt hugmyndafræðinni og útboðsgögn orðið til úr þeirri vinnu. Ítarlegar greinargerðir leiðsöguverkefnanna, svo sem greinargerð hönnuða Húss íslenskra fræða dags. 7. október 2010. Sjá ýtarefni til hægri á þessari síðu. Helsta niðurstaða í leiðsöguverkefnunum er að notkun upplýsingalíkana gefur hönnuðum aukna möguleika á að greina betur en ella alla þætti væntanlegrar framkvæmdar mannvirkisins sem eykur gæði hönnunargagna. Ákvarðanataka um lausnir færist framar í hönnunarferlið og gefur kost á breytingum með litlum eða engum aukakostnaði.

BIM skilalýsingar og handbók gagnasamskipta

Eitt af markmiðum BIM Ísland var að settar yrðu fram skilalýsingar fyrir BIM til að samræma skilakröfur í hönnunarverkefnum á markaðnum. Það var 35 manna vinnuhópur hönnuða og framkvæmdaaðila sem tók þátt í því verkefni og skoðaði skilalýsingar frá Finnlandi, Noregi, Danmörku, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum í þeim tilgangi að velja viðmiðun sem síðan yrði aðlöguð íslenskum aðstæðum. Valið var að nota finnskar skilalýsingar frá Senate Properties (Senaatti) á aðferðafærði BIM. Vinnuhópurinn las yfir allar handbækurnar og lagði mat á nauðsynlegar breytingar og aðlaganir sem þyrfti að gera miðað við íslenskar aðstæður. Sjá ýtarefni til hægri á þessari síðu.

Til stuðnings við BIM hefur einnig verið gefin út Notendahandbókin um gagnasamskipti með BIM/IFC er unnið á grundvelli reynslu og samvinnu aðila innan IAI (International Association of Interoperability) sem þýdd var á íslensku.

Árangur

Að mati hönnuða sem unnið hafa að innleiðingu BIM hefur innleiðingastarfið leitt í ljós almenna ánægju hagsmunaaðila með þessa nýbreytni og varpað ljósi á þörfina fyrir samræmingu á vinnuferlum innan mannvirkjagerðar. Líkönin, sem eru þegar orðin til, munu síðar nýtast rekstraraðilum mannvirkjanna og munu leiða okkur nær nágrannalöndum okkar hvað varðar notkun upplýsingatækni til hagræðingar í mannvirkjagerð- og rekstri.